Upplifðu Þórsmörk og Stakkholtsgjá í haustlitunum

Dagsferð í Þórsmörk með gönguferðum á Valahnúk og í Stakkholtsgjá

Þórsmörk í haustlitunum

Valahnúkur og Stakkholtsgjá

Þú finnur hvergi fallegri stað í haustlitunum, komdu með og upplifðu töfra Þórsmerkur og Stakkholtsgjár. 

Við byrjum daginn snemma og leggjum af stað frá BSÍ klukkan 08:00, nægur tími til að koma sér vel fyrir í rútunni og slaka á fyrir skemmtilegan dag.

Leiðin liggur yfir árnar inn að Stakkholtsgjá þaðan sem við göngum inn gilið með allt að 100 metra háa hamraveggi á báðar hendur. Í botni gilsins göngum við inn þröngt gljúfur þar sem 70 metra hár foss steypist niður iðagræna og mosavaxna klettana í kring. Gangan inn Stakkholtsgjá er auðveld og tekur um 40 mínútur aðra leið en við gætum þurft að stikla á steinum yfir lækinn á nokkrum stöðum svo gott er að vera í vatnsvörðum gönguskóm. Úr Stakkholtsgjá hoppum við aftur um borð í rútuna og höldum yfir Krossá að Húsadal í Þórsmörk. Þar verður hægt þar verður gert stutt stopp og hægt er að kaupa sér hressingu og komast á salerni áður en við höldum göngunni áfram. Að því búnu göngum við svokallaðan Þórsmörk Panorama hring sem liggur upp Húsadalinn yfir í Langadal og þaðan upp á Valahnúk sem er 436 metra hár móbergsstapi og eitt af helstu kennileitum Þórsmerkur. Af Valahnúk er óviðjafnanlegt útsýni yfir Þórsmörk, Eyjafjallajökul, Tindfjöll og inn yfir Fjallabak. Gönguleiðin er um 4km löng með um 220 metra hækkun og ætti því að henta flestum göngugörpum. Eftir frábæra göngu komum við aftur í Húsadal og gæðum okkur á hressingu sem hægt er að kaupa á staðnum (ekki innifalið). Að göngunni lokinni stígum við aftur um borð í rútuna og höldum heim á leið eftir ævintýri dagsins.

Hægt er að kaupa hádegisverð og svalandi drykk á barnum í Húsadal en einnig verður stoppað á Hvolsvelli þar sem möguleiki er að versla eitthvað til að eða taka með í rútuna.