Fimmvörðuháls

Fimmvörðuháls

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls frá Skógum í Þórsmörk

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls frá Skógum í Þórsmörk er ein vinsælasta gönguleið landsins. Gönguleiðin tengir saman Þórsmörk og Skóga þar sem gengið er á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls með stórfenglegt útsýni til allra átta.

Fimmvörðuháls rútuferðir og gisting í Þórsmörk

Fimmvörðuháls leiðarlýsing

Krefjandi leið með stórfenglegu útsýni

Leiðin yfir Fimmvörðuháls á milli Skóga og Þórsmerkur er ein vinsælasta gönguleið landsins. Þúsundir göngugarpa ganga þessa leið á hverju ári. Flestir ganga frá Skógum í Þórsmörk og enda þá ferðina ýmisst í Húsadal eða Básum í Þórsmörk. Einnig er hægt að ganga frá Þórsmörk á Skóga og tilvalið að enda gönguleiðina um Laugaveginn frá Landmannalaugum í Þórsmörk með því að bæta Fimmvörðuhálsinum við.

Frá Skógum hefst gönguleiðin við Skógafoss þaðan sem gengið er frá bílastæðinu upp stiga sem búið er að koma fyrir. Þrepin leiða göngufólk alla leið upp á brúnina þaðan sem gott útsýni er yfir Skógafoss. Þaðan er gengið eftir góðum stíg meðfram röð fallegra fossa í Skógaá áfram upp í hlíðirnar undir Eyjafjallajökli. Hægt er að komast yfir Skógaá á göngubrú sem búið er að koma fyrir. Skömmu eftir að farið er yfir göngubrúna er komið að Baldvinsskála sem er ómannaður skáli í eigu Ferðafélags Íslands. Hægt er að hvílast þar og borða nesti. Frá Baldvinsskála liggur leiðin áfram upp heiðina og þegar gönguleiðin nálgast hæsta punkt þarf að ganga í snjó nokkurn spöl. Hversu mikill snjórinn er ræðst að miklu leyti af árstíðum og snjósöfnun yfir veturinn. Efst á Fimmvörðuhálsi stendur Fimmvörðuskáli sem er í eigu Útivistar en þar er hægt að gista ef ætlunin er að ganga leiðina á tveimur dögum.

Eftir að hæsta punkti er náð í skarðinu á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls liggur leiðin niður í Þórsmörk. Leiðin niður í Þórsmörk er brött á köflum en vel merkt. Tilvalið er að staldra við hjá Goðahrauni og skoða gígana Móða og Magna þar sem sem eldgosið í Eyjafjallajökli hófst árið 2010. Áfram liggur leiðin niður Bröttufönn og Heljarkamb þar sem farið er niður brattar móbergshlíðar og klettabelti. Búið er að koma fyrir keðju til að halda sér þegar farið er niður Heljarkamb. Því næst liggur leiðin um Morinsheiði niður að Heiðarhorni og þaðan niður brattan Kattarhrygginn niður í Goðaland. Einnig er hægt að fara niður Hvannárgilið eða yfir Útigönguhöfða í stað þess að fara Kattarhrygg. Þegar komið er niður Kattarhrygg í Goðalandið tekur við kjarr- og gróðurlendi þar sem Básar eru staðsettir. Frá Básum er svo hægt að ganga yfir göngubrýr yfir Krossá yfir í Langadal og þaðan yfir í Húsadal.

Leiðin um Fimmvörðuháls er stórfengleg en afar krefjandi gönguleið sem tekur um 8 - 12 klukkustundir að ganga á venjulegum gönguhraða. Athugið að veður á Fimmvörðuhálsi geta verið válynd og fylgjast þarf náið með veðurspá við undirbúning ferðar og á meðan göngu stendur. Hér á vefnum er hægt að bóka rútuferðir frá Þórsmörk aftur á Skóga til að sækja bílinn.

Fyrri helming leiðarinnar er mikil hækkun þar sem ganga þarf frá Skógum úr um 50 metrum yfir sjávarmáli upp um 1.100 metra yfir sjávarmáli þar sem gönguleiðin liggur hæst yfir Fimmvörðuhálsinn.

Fimmvörðuháls Hiking Trail
Húsadalur Þórsmörk

Hreiðraðu um þig í Húsadal eftir gönguna yfir Fimmvörðuhálsinn. Hér færðu gistingu í uppábúnum rúmum, heitan mat, svalandi drykki og lætur þreytuna líða úr þér í gufunni.

Learn more
Þórsgatan

Eftir gönguna yfir Fimmvörðuhálsinn er tilvalið að ganga Þórsgötuna sem er ein fallegasta og besta gönguleið landsins.

Learn more
Fimmvörðuháls Volcano Trail