Laugavegurinn er ein vinsælasta gönguleið landsins enda er hún afar fjölbreytt og leiðir göngufólk um eitt fallegasta landslag Íslands að Fjallabaki. Leiðin er um 55 km löng og tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk. Hægt er að lengja gönguna með því að bæta við gönguleiðinni um Þórsgötu í Þórsmörk og með því að ganga yfir Fimmvörðuháls alla leið að Skógum.
Besta gönguleið landsins
Laugavegurinn er sannarlega ein vinsælasta og fallegasta gönguleið landsins. Gangan er tiltölulega aðgengileg og skálar sem hægt er að gista í eða tjalda við eru með reglulegu millibili á leiðinni. Laugavegurinn er um 55 kílómetra langur og liggur um afar fjölbreytt landslag að Fjallabaki og Þórsmörk með útsýni yfir Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul. Hver dagleið er ólík þeirri næstu og landslagið tekur miklum breytingum frá degi til dags. Hægt er að gista í skálum á leiðinni í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Emstrum og í Þórsmörk.
Flestir ganga leiðina á fjórum dögum frá norðri til suðurs eða frá Landmannalaugum í Þórsmörk með dagleiðum á bilinu 12 - 16 km. Einnig hægt er að hlaupa leiðina, ganga rösklega eða jafnvel hjóla á styttri tíma og en slíkt veltur allt á þjálfun og úthaldi og reynslu af fjallaferðum. Tilvalið er fyrir þá sem vilja lengja leiðina að bæta við gönguleiðunum um Þórsgötu í Þórsmörk og leiðinni yfir Fimmvörðuháls að Skógum.
Skálar á Laugaveginum opna yfirleitt í lok júní eða byrjun júlí en það veltur mikið á snjóalögum og því hvenær vegir í Landmannalaugar opna á vorin. Skálar eru jafnan opnir fram í miðjan september og tilvalið að ganga þessa frábæru leið á haustin.
Nánari upplýsingar um Laugaveginn með leiðarlýsingum og búnaðarlista er hægt að nálgast hér á síðunni.
Skálar á gönguleiðinni opna yfirleitt í kringum 25. júní og eru opnir þar til um miðjan september. Opnunartími skála fer þó eftir aðstæðum s.s. opnun vegarins í Landmannalaugar og snjóalögum á gönguleiðinni. Skálar okkar og þjónusta í Húsadal Þórsmörk er opin á milli 1. maí - 30. September og aðeins opið fyrir hópabókanir á milli 1. október - 14. maí.
Hægt er að fara Laugaveginn að á gönguskíðum að vetri til en þá er nauðsynlegt að hafa með sér traustan vetrarbúnað og búa að reynslu af vetrarferðum á hálendinu.
Til að komast í Landmannalaugar og Þórsmörk að vetri til þarf að hafa sérútbúna fjallajeppa á minnst 38" dekkjum.
Hér á síðunni er hægt að bóka tilbúna ferðapakka með rútumiðum og gistingu í skálum á leiðinni.
Hér er hægt að bóka rútuferðir í Landmannalaugar og heim aftur úr Þórsmörk eða Skógum hér Bóka miða.
Flestir ganga Laugaveginn frá Landmannalaugum í Þórsmörk á fjórum dögum og gista ýmist í tjöldum eða skálum sem staðsettir eru á leiðinni í Hrafntinnuskeri, Álftavatni & Hvanngili, Emstrum og í Þórsmörk. Fjölmargir fara leiðina þó á skemmri tíma með því að ganga hana rösklega á tveimur dögum eða skokka hana á einum degi.
Síðustu ár hefur einnig aukist umferð fólks á fjallahjólum um Laugaveginn.
Fyrir allt venjulegt göngufólk mælum við með því að ganga leiðina á fjórum dögum og bæta þá við litlum útúrdúrum hér og þar eftir veðri og aðstæðum.
Skálar á gönguleiðinni eru staðsettir í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili, Emstrum og í Þórsmörk. Sjá nánari staðsetningu og lýsingu í leiðarlýsingu hér neðar.
Sturtur eru við alla skála en greiða þarf sérstaklega fyrir aðgang að sturtum nema í Húsadal Þórsmörk þar sem baðaðstaða er innifalin í verði gistingar.
Salernisaðstaða er við alla skála sem ferðamenn hafa frjálsan aðgang að.
ATH að ekki er salernisaðstaða utan skálasvæðanna þannig að þú gætir því þurft að bregða þér á bak við hól ef skyndilega kemur yfir þig þörfin. Það gæti því reynst gott að hafa með sér bréfþurrkur og mundu að ganga þannig frá að engin ummerki sjáist á eftir.
Flestir ganga Laugaveginn í júlí og ágúst en eftir því sem lengra líður á sumarið minnka líkur á því að ganga þurfi mikið í snjó. Seinni hluta sumars eða upp úr miðjum ágúst eykst mikið í ám á svæðinu og í miklum rigningum geta orðið miklar leysingar. Það er þó afar sjaldgæft að ekki sé hægt að vaða árnar en fara þarf þó með gát ef mikið vatn er í ánum.
Veður er almennt hlýrra í júlí og Ágúst en kalt getur þó orðið á nóttunni og allra veðra er von hvenær sem er ársins. Þegar kemur fram í september fer að kólna en oft eru þó kjöraðstæður til að ganga þessa fallegu leið snemma á haustin.
Almennt má segja að göngleiðin yfir Laugaveginn sé fremur létt og aðgengileg en það veltur þó allt á formi hvers og eins, aðstæðum hverju sinni og hvernig gangan er skipulögð.
Sé gangan farin á fjórum dögum má segja að hún sé vel viðráðanleg flestu göngufólki í sæmilegu formi. Mesta hækkun er tæpir 500 metrar fyrsta daginn úr Landmannalaugum í Hrafntinnusker en eftir það er gengið niður í mót með stöku brekkum og giljaskorningum.
Lengsta dagleið er um 16 km og ætti ekki að taka lengur en 4 - 6 klst. Kaflar á leiðinni svosem um sandana á milli Hvanngils og Emstra getur reynt á þolrifin því þó gengið sé um ægifagurt landslag þá breytist leiðin lítið fyrr en komið er nánast alveg að Emstrum.
Hælsæri, álagsmeiðls eða nuddsár undan bakpoka eða á milli læra geta þó haft afgerandi áhrif á ánægju göngufólks á Laugaveginum.
Gönguleiðin er ágætlega vel merkt en þó er ekki hægt að treysta á að stikur séu meðfram allri leiðinni.
Göngustígurinn er vel markaður í jarðveginn og svo lengi sem ekki er snjór á leiðinni þá sést vel hvar leiðin liggur og stígurinn leiðir mann vel áfram.
Upplýsingaskilti eru hér og þar auk þess sem vegvísar eru hér og þar á leiðinni og vísa í áttina að helstu áfangastöðum.
Nauðsynlegt er að hafa kort, áttavita og jafnvel GPS staðsetningartæki meðferðis og mundu að það er ekki nóg að hafa þetta með, þú þarft líka að kunna að nota þetta.
Sími kemur ekki í staðinn fyrir kort, áttavita og GPS tæki en er ágæt viðbót.
Bera þarf allan búnað með sér á bakinu og því er gott að fara vel yfir búnaðarlista og huga vel að því hvernig raðað er í pokann.
Veitingastaður okkar við Álftavatn býður upp á kærkomna hressingu fyrir göngufólk en þar er hægt að kaupa hádegisverð, kvöldverð, snarl og létta drykki á barnum. Sjá nánar hér.
Veitingar er einnig hægt að fá keyptar í Húsadal Þórsmörk við enda gönguleiðarinnar. Sjá nánar hér.
Nesti þarf að taka mið af því að næg orka sé í því fyrir allt að 8 klst göngu á dag. Gott er að hafa nesti sem ætlunin er að borða hvern dag aðgengilegt ofarlega í pokanum og eitthvað orkuríkt snarl s.s. hnetur, súkkulaði og rúsínur í vasanum til að maula á leiðinni. Annað nesti er gott að hafa neðarlega í pokanum og sem næst hryggnum því nokkur þyngd getur verið í nestispakka fyrir fjóra daga.
Gott er að hafa vatnsflösku aðgengilega utan á pokanum en einnig er gott að hafa mál í bandi sem hægt er að nota til að fá sér vatnssopa úr ám og lækjum á leiðinni. Þannig þarf ekki að bera eins mikla þyngd í vatni og ekki alltaf að vera að fylla á vatnsbrúsann. Vatn ætti að vera aðgengilegt víða á leiðinni.
Hægt er að fá borðbúnað og helstu eldunaráhöld í skálum á leiðinni en þó getur orðið mikil aðsókn í að nota eldunaráhöld og því getur verið gott að hafa sinn eigin búnað meðferðis.
Kort og áttaviti - Kunna þarf á þessi tæki
GPS tæki er gott að hafa en tryggja þarf að rafhlöður hafi nægan endingartíma í amk 12 klst göngu
Sími - fullhlaðinn jafnvel með auka hleðslu
Stór bakpoki amk 50 L með vatnsheldri hlíf og gott er að hafa fatnað og annað sem ekki má blotna í vatnsheldum poka ofan í bakpokanum
Innstalag - Ullarnærföt
Millilag - t.d. Ull eða flísefni
Ystalag - Vind og vatnsheldur göngu og útivistarfatnaður
Aukafatnaður til að hafa ef föt, skór og sokkar blotna
Þægilegur fatnaður til að vera í í skálum
Hlýr jakki t.d. dún eða primaloft eða ullarpeysa
Nesti til 8 klukkustunda göngu hvern dag
Vatnsbrúsa - 1,5 - 2 L
Mál til að hengja utan á bakpoka
Húfa og vettlingar
Góðir gönguskór með stuðningi við ökkla
Vaðskór til að vaða ár
Göngusokkar úr ull eða ullarblöndu
Legghlífar er gott að hafa en ekki nauðsynlegt
Hælsærisplástrar, plástrar, teygjubindi fyrir ökkla
Sólgleraugu og sólarvörn
Göngustafi getur verið gott að hafa en ekki nauðsynlegt
Vindsekkur sem hægt er að klæða sig í og hlífa sér fyrir vindi og úrkomu ef nauðsyn krefur
Höfuðljós ef farið er á tíma þar sem myrkur getur skollið á
Gaman getur verið að hafa sjónauka og góða myndavél
Laugavegurinn er frábær gönguleið og við bestu aðstæður býður hún upp á þægilega göngu í óviðjafnanlegu landslagi. Margt getur þó gerst sem breytir þægilegri heilsubótargöngu í krefjandi og jafnvel lífshættulega svaðilför. Veður, slys og lélegur búnaður geta skipt sköpum og því er ávallt nauðsynlegt að huga vel að undirbúningi.
Farsímasamband er víða á leiðinni en þó eru kaflar á leiðinni þar sem ekkert samband næst.
Veður getur breyst mikið og óveður skollið á með skömmum fyrirvara með miklum vindi og úrkomu. Hitastig getur lækkað mikið og hafa ber í huga að þó mikill hiti sé yfir daginn þá getur hiti fallið vel niður fyrir frosmark á nóttunni hvenær sem er ársins. Þoka, snjór og skafrenningur getur hamlað útsýni sem gerir rötun erfiða.
Flest banaslys á hálendinu má rekja til ofkælingar þar sem illa búið fólk villist af leið og lætur lífið vegna bleytu og kulda.
Vatnavextir geta orðið miklir í rigningum og hita sem hafa þarf í huga þegar vaða þarf ár á leiðinni.
Haldið ykkur sem næst gönguleiðinni og ef farið er af leið látið þá vita um breytta áætlun.
Skráðu ferðatilhögun hjá Hálendisvaktinni www.safetravel.is
Náttúran á Hálendi Íslands er einkar viðkvæm og mörg ár eða áratugi getur tekið fyrir gróðurskemmdir að gróa aftur. Höldum okkur á göngustígum, hendum ekki rusli á víðavangi og tjaldið aðeins á merktum tjaldsvæðum.
Gerum öll okkar besta til að vernda náttúru Íslands.
Gangan hefst í Landmannalaugum við skála Ferðafélags Íslands. Gönguleiðin liggur um Laugahraun og upp nokkrar brekkur að Brennisteinsöldu. Leiðin liggur aðeins upp í mót með útsýni yfir litrík líparítfjöllin í kringum Landmannalaugar. Miðja vegu á leiðinni er gengið fram á Stórahver þar sem mikil gufa rís upp af sjóðandi hverum og jarðhita. Fara þarf varlega kringum hverina því auðvelt er að brenna sig á heitu vatninu og jarðveginum. Þaðan er gengið áfram eftir hásléttunni þar sem ár og lækir hafa skorið sig í gegnum mjúkan jarðveginn. Frá Stórahver er um einnar klukkustundar ganga að Höskuldsskála við Hrafntinnusker. Snjór getur verið á leiðinni og hér er einna mest hætta á vondu veðri og slæmu skyggni vegna þoku.
Frá Höskuldarskála við Hrafntinnusker liggur leiðin niður eftir sléttunni vestur af Reykjafjöllum en fara þarf yfir nokkuð marga gil og lækjarskorninga sem oft eru undir snjó lengi frameftir sumri. Fara þarf varlega því snjóbrýr geta verið þunnar og jarðvegur laus í gilskorningunum. Haldið er áfram upp á Jökultungurnar þaðan sem útsýni er gott yfir stóran hluta gönguleiðarinnar framundan, jöklana og fjöllin um kring. Frá Jökultungunum liggur leiðin niður brattar brekkur þar sem fara þar varlega svo ekki skriki fótur. Þegar niður brekkurnar er komið liggur leiðin eftir sléttum slóða að Álftavatni þar sem hægt er að versla léttar veitingar. Ef ferðinni er heitið í Hvanngil er gengið áfram í um eina og hálfa klukkustund eftir vel merktum slóða þar til komið er að skálanum í Hvanngili.
Frá Álftavatni liggur leiðin um Braháls eftir vel merktum slóða yfir í Hvanngil. Vaða þarf ána Bratthálskvísl. Í Hvanngili er skáli sem einnig er hægt að nota til að gista í eða tjalda við. Frá Hvanngili er farið yfir Kaldaklofskvísl á göngubrú sem búið er að koma upp. Þaðan er slóðanum fylgt til suðurs í átt að Emstrum og Þórsmörk en skilti vísa rétta leið. Gönguleiðin liggur samhliða jeppaslóða sem einnig er hægt að ganga eftir. Vaða þarf yfir Bláfjallakvísl sem komið er að eftir spölkorn. Farið er síðan yfir Innri Emstruá á brú sem er staðsett á jeppaslóðanum skammt frá gönguleiðinni. Frá ánni er síðan gengið eftir jeppaslóðanum spölkorn þar til beygt aftur inn á gönguleiðina. Þaðan liggur gönguleiðin um sanda og hraun alla leið að Botnaskála í Emstrum.
Úr Emstrum er gengið eftir vel sýnilegum og merktum slóða inn Syðri-Emstruárgljúfur þar sem áin steypist í boðaföllum í djúpu gljúfrinu undan Entujökli. Brattur og kræklóttur stígur liggur niður að göngubrú yfir ána og tilkomumikið getur verið að staldra við og virða fyrir sé gljúfrin af brúnni. Frá Langahálsi liggur leiðin að Markarfljótsgljúfri þar sem árnar tvær mætast í Markarfljóti og vel þess virði er að staldra þar við og virða fyrir sér þessi miklu gljúfur.
Þaðan er gengið eftir Almenningum suður í átt að Þórsmörk. Gengið er niður í Slyppugil og Brjógil upp eftir Fauskatorfu. Slóðinn er vel sýnilegur og merktur með stikum.
Að endingu er gengið yfir Ljósá á göngubrú og þaðan uppá og yfir Kápu niður að Þröngá sem þarf að vaða yfir. Þegar komið er yfir Þröngá þaðan sem gengið er í gegnum Hamraskóga um tveggja kílómetra leið í Þórsmörk.
Hér getur þú bókað rútuferð í Landmannalaugar og heim aftur úr Þórsmörk eða frá Skógum. Þú tekur rútuna frá BSÍ og bókar svo annan miða heim aftur frá Þórsmörk eða frá Skógum ef þú ætlar að líka að ganga Fimmvörðuhálsinn.