Í Þórsmörk er að finna bestu göngu- og hlaupaleiðir landsins. Allir ættu að finna þar leiðir við sitt hæfi hvort sem um lengri eða styttri ferðir er að ræða.
Einstakt útsýni yfir alla Þórsmörk
Þórsgata er ný 17 kílómetra löng gönguleið sem liggur hring í kringum Þórsmörk. Leiðin liggur upp frá Húsadal, í gegnum Hamraskóg að Slyppugilshrygg og þaðan framhjá Tröllakirkju uppá Tindfjallasléttu, niður Stangarháls og meðfram Krossá að Langadal, upp á Valahnúk, niður eftir endilöngum Merkurrana, út á Markarfljótsaura og endar aftur í Húsadal.
Þórsgata er einhver fallegasta og fjölbreyttasta gönguleið landsins og býður upp á fjölda möguleika til að stytta eða lengja leiðina, allt eftir þörfum hvers og eins. Fjallasýn Þórsmerkur og nærliggjandi svæða er einstök og Þórsgata gefur fólki færi á að upplifa þessa einstöku náttúru frá fjölda sjónarhorna.
Hægt er að ganga, hlaupa og jafnvel hjóla Þórsgötu alla á einum degi fyrir þá sem eru í góðu líkamlegu ástandi en fyrir þá sem vilja skipta henni upp í styttri áfanga höfum við skipt leiðinni í fimm hringi sem hægt er tengja saman til að lengja eða stytta jafnvel ennfrekar. Hver hringur býður upp á fallegt útsýni og fjölbreytta upplifun en hægt er að velja allt frá mjög stuttum göngutúrum sem taka ekki nema 20 mínútur upp í heilsdags leiðangra með ýmsum útúrdúrum. Göngufólk getur þannig sett sér takmark um að klára Þórsgötu í heilu lagi eða í eins mörgum áföngum og hentar hverjum og einum.
Þórsgata er frábær valkostur fyrir fólk sem vill upplifa einstaka náttúru Þórsmerkur en leiðin er sérlega vel staðsett á milli gönguleiðanna um Laugaveg og Fimmvörðuháls. Þannig geta þeir sem fara þessar leiðir nú bætt Þórsgötu við og aukið ennfrekar upplifun af gönguferðinni. Þórsgata er einnig tilvalinn kostur fyrir þá sem ekki komast yfir Fimmvörðuháls vegna veðurs en frá Þórsgötu er einnig frábært útsýni yfir Fimmvörðuháls og Eyjafjallajökul. Hér er hægt að bóka gistingu í Þórsmörk
Besta útsýnið / 2 klst
Vinsæl gönguleið þar sem genginn er hringur úr Húsadal yfir í Langadal og þaðan upp á tind Valahnúks. Leiðin er um 4 kílómetra löng og liggur eftir vel merktum gönguleiðum með ægifagurt útsýni yfir alla Þórsmörk, Eyjafjallajökul, Tindfjöll og Fjallabak. Hægt er að ganga hringinn í báðar áttir en gangan upp Valahnúk er heldur auðveldari upp frá Langadal. Efstu hlutar leiðarinnar eru nokkuð brattir en þar er búið að gera þrep sem auðvelt er að fóta sig á. Einnig er hægt að ganga beint upp á Valahnúk frá bæði Húsadal og Langadal. Útsýni frá tindi Valahnúks er yfir alla Þórsmörk og auðvelt er að lengja þennan hring með því að tengja hann við aðrar gönguleiðir sem nefndar eru hér á síðunni. Gönguleiðakort eru seld í Húsadal og starfsfólk okkar í móttöku aðstoðar þig við að skipuleggja ferðina þegar þú mætir. Hér er hægt að bóka gistingu í Þórsmörk
Allt það helsta á einum degi / 3 - 4 klst
Merkurrhringurinn leiðir þig um alla þekktustu staði Þórsmerkur og gefur góða yfirsýn yfir Þórsmörk. Gengið er upp í gegnum Húsadal, upp á Slyppugilshrygg og þaðan niður í Langadal. Þaðan liggur svo leiðin upp á Valahnúk þaðan sem útsýni er best yfir Þórsmörk. Leiðin liggur eftir vel merktum göngustígum um fjölbreytt landslag Þórsmerkur. Leiðin liggur um skóga, dali, gil og fjallstinda en auðvelt er að lengja eða stytta þessa leið og sníða hana þannig að þörfum hvers og eins. Tilvalið er að staldra við á völdum stöðum og fá sér nesti. Merkurhringurinn tekur um það bil 3 - 4 klukkustundir á þægilegri göngu. Gönguleiðakort eru seld í Húsadal og starfsfólk okkar í móttöku aðstoðar þig við að skipuleggja ferðina þegar þú mætir. Hér er hægt að bóka gistingu í Þórsmörk
Undir hlíðum Rjúpnafells / 4 - 5 klst
Tindfjallahringurinn í Þórsmörk er vafalítið ein fallegasta og fjölbreyttasta gönguleið landsins. Gönguleiðin er vel merkt og afar fjölbreytt og veitir útsýni yfir Þórsmörk frá sjónarhornum sem ekki eru í alfaraleið. Gengið er upp í gegnum Húsadal og Hamraskóg upp á Slyppugilshrygg. Þaðan er gengið eftir krókóttum stíg í bröttum hlíðum Tindfjalla, framhjá Tröllakirkju og upp á Tindfjallasléttu. Á Tindfjallasléttunni er gengið umhverfis Tindfjallahrygginn með Rjúpnafellið trónandi tignarlega yfir. Hægt er að lengja þennan hring með því að ganga á Rjúpnafellið sem bætir um 2 klst við hringinn. Frá Tindfjallasléttunni er gengið fram á Stangarháls þaðan sem gengið er niður eftir bröttum klettahrygg með Stóra Enda á aðra hönd og Krossáraurana neðst í dalnum á hina. Útsýni er gott yfir Morinsheiði og Fimmvörðuháls. Fara þarf varlega niður Stangarhálsinn þar sem hann er brattastur en góður göngustígur leiðir göngugarpa áfram niður dalinn. Þegar komið er niður hálsinn er gengið eftir Krossáraurunum að Langadal þaðan sem hægt er að ganga yfir Valahnúk eða velja auðveldari leiðina beint yfir í Húsadal. Tindfjallahringurinn er tvímælalaust ein áhugaverðasta og besta gönguleið landsins. Á þægilegum gönguhraða tekur það um 4 - 5 klst að ganga allan hringinn. Tindfjallahringurinn er einnig vinsæl leið fyrir utanvegahlaupara. Gönguleiðakort eru seld í Húsadal og starfsfólk okkar í móttöku aðstoðar þig við að skipuleggja ferðina þegar þú mætir. Hér er hægt að bóka gistingu í Þórsmörk
Óviðjafnanlegt útsýni, þægileg ganga / 3 - 4 klst
Merkurraninn er fjallshryggur sem liggur frá Hlíðum Valahnúks að Krossá. Gengið er frá Húsadal upp í gegnum skóginn, framhjá klettinum Össu þaðan sem komið er upp á brúnirnar fyrir ofan Húsadal. Í stað þess að halda áfram upp Valahnúk er gengið út Merkurranann í átt að Eyjafjallajökli sem trónir tignarlegur í fjarska. Gönguleiðin liggur eftir miðjum fjallshriggnum og er auðveld yfirferðar með glæsilegt útsýni til allra átta. Þegar komið er út að enda Merkurranans er hægt að ganga yst út á klettasnös með útsýni beint niður á vaðið yfir Krossá. Klettarnir eru snarbrattir og fara þarf varlega þegar gægst er yfir brúnina. Á leiðinni tilbaka er hægt að fara niður af rananum og ganga meðfram hlíðinni alla leið að Húsadal. Á leiðinni er tilvalið að staldra við í Sóttarhelli en þar segir sagan að 18 smalamenn hafi látið lífið þegar tröllskessa lagði á þá álög. Frá Sóttarhelli er örstutt í Húsadal aftur. Gangan út eftir Merkurrana er auðveld og tekur að jafnaði um 2 - 3 klst. Gönguleiðakort eru seld í Húsadal og starfsfólk okkar í móttöku aðstoðar þig við að skipuleggja ferðina þegar þú mætir. Hér er hægt að bóka gistingu í Þórsmörk
Ævintýri fyrir alla fjölskylduna / 1 - 2 klst
Álfaslóð er stutt og ævintýraleg leið fyrir alla. Leiðin liggur frá Húsadal meðfram klettinum Össu sem trónir yfir Húsadal. Í klettinum er gat sem kallað er Arnaraugað og með því að horfa þar í gegn er sagt að maður eigi að geta séð framtíð sína birtast. Frá Össu er gengið áfram í gegnum skóginn niður að álfakletti sem klofinn er í tvennt. Með því að ganga í gegnum skarðið á klettinum er hægt að fara yfir í huliðsheima þar sem álfar og huldufólk býr. Fara þarf varlega og leggja þarf leiðina á minið til að komast aftur heim í mannheima. Frá Álfakletti liggur leiðin eftir lækjarbotni upp að Sönghelli þaðan sem söngur álfa og huldufólks heyrist í gegnum vatnsniðinn frá litlum fossi sem fellur í hellinn. Klifra þarf og feta sig á milli stórra steina til að komast í hellinn. Frá Sönghelli liggur leiðin í gegnum skóginn þar sem álfarnir ráða ríkjum. Frá álfaskóginum liggur leiðin niður í skógardalina þrjá þar sem hulduheimar og goðheimar mætast. Skammt þaðan er að finna vagn þrumuguðsins Þórs sem býður þess að taka á loft. Frá vagni Þórs er gegnið upp á hamra yfir Markarfljótsgljúfur þaðan sem útsýni er yfir Tröllagjá og alla Þórsmörk. Að endingu liggur leiðin niður að Dvergasteini sem stendur einn uppi á flóðvarnargarðinum við Markarfljót og ver Húsadal fyrir jökulhlaupum úr Markarfljóti. Álfaslóð er ævintýraleg leið sem hægt er að ganga á 1 - 2 klst eftir því sem hentar. Gönguleiðakort eru seld í Húsadal og starfsfólk okkar í móttöku aðstoðar þig við að skipuleggja ferðina þegar þú mætir. Hér er hægt að bóka gistingu í Þórsmörk
Til að komast í og úr Þórsmörk þarf að fara yfir margar óbrúaðar ár. Ekið er með hlíðum Eyjafjallajökuls og á leiðinni er gott útsýni yfir helstu umbrotasvæði frá því í Eyjafjallajökulsgosinu árið 2010. Best er að leggja bílnum og taka hálendisrútuna í Þórsmörk til að komast þangað fljótt og örugglega. Rútuferðin tekur um eina klukkustund frá Seljalandsfossi.