Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls frá Skógum í Þórsmörk

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls frá Skógum í Þórsmörk er ein vinsælasta gönguleið landsins. Gönguleiðin tengir saman Þórsmörk og Skóga þar sem gengið er á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls með stórfenglegt útsýni til allra átta.

Fimmvörðuháls rútuferðir og gisting í Þórsmörk

Fimmvörðuháls leiðarlýsing

Krefjandi leið með stórfenglegu útsýni

Leiðin yfir Fimmvörðuháls á milli Skóga og Þórsmerkur er ein vinsælasta gönguleið landsins. Þúsundir göngugarpa ganga þessa leið á hverju ári. Flestir ganga frá Skógum í Þórsmörk og enda þá ferðina ýmisst í Húsadal eða Básum í Þórsmörk. Einnig er hægt að ganga frá Þórsmörk á Skóga og tilvalið að enda gönguleiðina um Laugaveginn frá Landmannalaugum í Þórsmörk með því að bæta Fimmvörðuhálsinum við.

Frá Skógum hefst gönguleiðin við Skógafoss þaðan sem gengið er frá bílastæðinu upp stiga sem búið er að koma fyrir. Þrepin leiða göngufólk alla leið upp á brúnina þaðan sem gott útsýni er yfir Skógafoss. Þaðan er gengið eftir góðum stíg meðfram röð fallegra fossa í Skógaá áfram upp í hlíðirnar undir Eyjafjallajökli. Hægt er að komast yfir Skógaá á göngubrú sem búið er að koma fyrir. Skömmu eftir að farið er yfir göngubrúna er komið að Baldvinsskála sem er ómannaður skáli í eigu Ferðafélags Íslands. Hægt er að hvílast þar og borða nesti. Frá Baldvinsskála liggur leiðin áfram upp heiðina og þegar gönguleiðin nálgast hæsta punkt þarf að ganga í snjó nokkurn spöl. Hversu mikill snjórinn er ræðst að miklu leyti af árstíðum og snjósöfnun yfir veturinn. Efst á Fimmvörðuhálsi stendur Fimmvörðuskáli sem er í eigu Útivistar en þar er hægt að gista ef ætlunin er að ganga leiðina á tveimur dögum.

Eftir að hæsta punkti er náð í skarðinu á milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls liggur leiðin niður í Þórsmörk. Leiðin niður í Þórsmörk er brött á köflum en vel merkt. Tilvalið er að staldra við hjá Goðahrauni og skoða gígana Móða og Magna þar sem sem eldgosið í Eyjafjallajökli hófst árið 2010. Áfram liggur leiðin niður Bröttufönn og Heljarkamb þar sem farið er niður brattar móbergshlíðar og klettabelti. Búið er að koma fyrir keðju til að halda sér þegar farið er niður Heljarkamb. Því næst liggur leiðin um Morinsheiði niður að Heiðarhorni og þaðan niður brattan Kattarhrygginn niður í Goðaland. Einnig er hægt að fara niður Hvannárgilið eða yfir Útigönguhöfða í stað þess að fara Kattarhrygg. Þegar komið er niður Kattarhrygg í Goðalandið tekur við kjarr- og gróðurlendi þar sem Básar eru staðsettir. Frá Básum er svo hægt að ganga yfir göngubrýr yfir Krossá yfir í Langadal og þaðan yfir í Húsadal.

Leiðin um Fimmvörðuháls er stórfengleg en afar krefjandi gönguleið sem tekur um 8 - 12 klukkustundir að ganga á venjulegum gönguhraða. Athugið að veður á Fimmvörðuhálsi geta verið válynd og fylgjast þarf náið með veðurspá við undirbúning ferðar og á meðan göngu stendur. Hér á vefnum er hægt að bóka rútuferðir frá Þórsmörk aftur á Skóga til að sækja bílinn.

Fyrri helming leiðarinnar er mikil hækkun þar sem ganga þarf frá Skógum úr um 50 metrum yfir sjávarmáli upp um 1.100 metra yfir sjávarmáli þar sem gönguleiðin liggur hæst yfir Fimmvörðuhálsinn.

Húsadalur Þórsmörk

Hreiðraðu um þig í Húsadal eftir gönguna yfir Fimmvörðuhálsinn. Hér færðu gistingu í uppábúnum rúmum, heitan mat, svalandi drykki og lætur þreytuna líða úr þér í gufunni.

Lesa meira
Þórsgata

Eftir gönguna yfir Fimmvörðuhálsinn er tilvalið að ganga Þórsgötuna sem er ein fallegasta og besta gönguleið landsins.

Lesa meira
Fimmvörðuháls spurt og svarað
Plus icon to open answer to question
Hvaðan er best að leggja af stað á Fimmvörðuháls?

Hægt er að ganga Fimmvörðuhálsinn í báðar áttir frá Skógum í Þórsmörk eða úr Þórsmörk og Goðalandi að Skógum. Flestir ganga frá Skógum í Þórsmörk og margir velja að gista eina eða tvær nætur í kjölfarið og ganga um Þórsmörk daginn eftir gönguna yfir Fimmvörðuháls. Útsýnið yfir fossana í Skógaá og síðan yfir Þórsmörk er óviðjafnanlegt á góðum degi.

Margir velja einnig að bæta gönguleiðinni yfir Fimmvörðuáls við gönguna yfir Laugaveginn.

Plus icon to open answer to question
Hvernig kemst ég að gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls?

Skógar - Þórsmörk: Hægt er að aka með fólksbíl að Skógum og leggja bílnum þar á bílastæðum við upphaf gönguleiðarinnar.

Þórsmörk - Skógar: Hægt er að taka rútu frá Reykjavík, Hveragerði, Selfossi, Hellu og Hvolsvelli í Þórsmörk.

Plus icon to open answer to question
Hvar er best að leggja bílnum?

Ef lagt er af stað frá Skógum er hægt að leggja bílnum á bílastæðinu við Skógafoss.

Ef lagt er af stað frá Þórsmörk er ýmist hægt að leggja bílnum við Brú Base og taka rútu þaðan í Bása en til að komast á einkabílum í Þórsmörk þarf fólk að vera á jeppa. Þá er hægt að leggja við Bása eða Húsadal og ganga þaðan yfir Fimmvörðuháls. Hér er hægt að bóka ferðir frá Brú Base í Þórsmörk.

Plus icon to open answer to question
Hvernig sæki ég bílinn aftur eftir gönguna yfir Fimmvörðuháls?

Hægt er að bóka akstur frá Þórsmörk, Húsadal, Básum eða Langadal, beint aftur að Skógum til að sækja bílinn og keyra aftur heim. Margir gista í Þórsmörk og bóka ferðina heim daginn eftir. Hér getur þú bókað rútuferð frá Þórsmörk að Skógum.

ATH - Ekki er boðið upp á ferðir frá Skógum í Þórsmörk svo erfitt getur verið að sækja bíla aftur í Þórsmörk.

Plus icon to open answer to question
Hvað er gangan yfir Fimmvörðuháls löng?

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er 24 km frá Skógum niður í Bása á Goðalandi, þaðan eru 6 km sem bætast við gönguna yfir í Húsadal en sá hluti leiðarinnar er að mestu eftir sléttlendi og er auðveld yfirferðar. í Húsadal er svo tilvalið að fá sér kvöldverð og létta hressingu á barnum.

Gangan yfir Fimmvörðuháls getur tekið á bilinu 8 - 12 klst eftir því hversu hratt er farið yfir. Veður og snjóalög geta haft mikil áhrif á tímann sem tekur að ganga yfir Fimmvörðuháls.

Plus icon to open answer to question
Veður og aðstæður á Fimmvörðuhálsi

Veður á Fimmvörðuhálsi getur breyst með litlum fyrirvara og varasamt getur verið að leggja af stað ef veður er tvísýnt. Enginn ætti að leggja af stað á Fimmvörðuháls ef veður er tvísýnt og án þess að hafa skoðað nýjustu veðurspár. Fimmvörðuháls nær upp í um 1.100 metra hæð yfir sjávarmáli og þar geta brostið á einhver verstu veðurskilyrði á landinu með miklum vindi, mikilli úrkomu og þoku eða skafrenningi með litlu eða engu skyggni. Búast má við því að ganga í snjó vel fram á sumar á ýmsum stöðum á leiðinni.

Plus icon to open answer to question
Vatn á leiðinni

Hægt er að fylla á vatn í Skógaá sem rennur niður Skógaheiði t.d. við göngubrúna yfir Skógaá en eftir það er ekki víst að hægt sé að komast í vatn þannig að best er að fylla á vatnsbrúsa þegar farið er yfir ána. Möguleiki er að finna litla læki eða polla með snjóbráð eða rigningarvatni en ekki hægt að treysta á það.

Plus icon to open answer to question
Hvað þarf að hafa meðferðis?
  • Kort og áttaviti - Kunna þarf á þessi tæki
  • GPS tæki er gott að hafa en tryggja þarf að rafhlöður hafi nægan endingartíma í amk 12 klst göngu
  • Sími - fullhlaðinn
  • Léttur bakpoki 15 - 30 L með vatnsheldri hlíf og gott er að hafa fatnað og annað sem ekki má blotna í vatnsheldum poka ofan í bakpokanum
  • Innstalag - Ullarnærföt
  • Millilag - t.d. Ull eða flísefni
  • Ystalag - Vind og vatnsheldur göngu og útivistarfatnaður
  • Hlýr jakki t.d. dún eða primaloft eða ullarpeysa
  • Nesti til 12 klukkustunda göngu
  • Vatnsbrúsa - 1,5 - 2 L
  • Húfa og vettlingar
  • Góðir gönguskór með stuðningi við ökkla
  • Göngusokkar úr ull eða ullarblöndu
  • Legghlífar er gott að hafa en ekki nauðsynlegt
  • Hælsærisplástrar, plástrar, teygjubindi fyrir ökkla
  • Sólgleraugu og sólarvörn
  • Göngustafi getur verið gott að hafa en ekki nauðsynlegt
  • Vindsekkur sem hægt er að klæða sig í og hlífa sér fyrir vindi og úrkomu ef nauðsyn krefur
  • Höfuðljós ef farið er á tíma þar sem myrkur getur skollið á

Plus icon to open answer to question
Hvað ber að varast á Fimmvörðuhálsi?

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er löng og krefjandi og því nauðsynlegt að vera í sæmilegu eða góðu gönguformi

Hafa þarf í huga að mikla orku þarf til að ganga þessa leið og lítið þarf út af að bera til að gangan lengist um margar klukkustundir. Því þarf að gera ráð fyrir orkumiklu nesti fyrir allt að 12 klst göngu.

Veður - alls ekki leggja af stað ef veður er tvísýnt og líkur eru á slæmu veðri - oft er þoka og hvassviðri efst á Fimmvörðuhálsi þó gott veður sé við upphaf leiðarinnar

Snjór og krapi - snemma á vorin og fram eftir sumri getur verið mikill snjór með krapa sem getur gert aðstæður afar erfiðar einkum efst á gönguleiðinni og á Morinsheiði. Líkur eru á því að blotna í fæturnar við slíkar aðstæður.

Best er að halda sig við gönguleiðina og fara ekki langt út frá merktum leiðum nema láta vita af breyttri ferðaáætlun

Gott er að kunna grunnatriði í skyndihjálp

Plus icon to open answer to question
Áhugaverðir staðir og örnefni á Fimmvörðuhálsi
  • Skógafoss
  • Skógaheiði
  • Skógaá og fossarnir í ánni
  • Baldvinsskáli
  • Fimmvörðuhálsskáli
  • Brattafönn
  • Heljarkambur
  • Goðahraun
  • Móði
  • Magni
  • Morinsheiði
  • Hvanngil
  • Kattarhryggur
  • Goðaland
  • Þórsmörk
  • Eyjafjallajökull
  • Mýrdalsjökull

Plus icon to open answer to question
Gisting og veitingar í Þórsmörk

Eftir gönguna er tilvalið að fá sér kvöldverð, gista og nýta síðan daginn eftir til að ganga úr sér þreytuna í Þórsmörk. Hér er hægt að sjá yfirlit yfir gistimöguleikana í Húsadal Þórsmörk.

Hér finnur þú upplýsingar um veitingastaðinn í Húsadal Þórsmörk.

Fimmvörðuháls Volcano Trail
>