Til að komast í og úr Þórsmörk þarf að fara yfir margar óbrúaðar ár. Húsadalur er staðsettur í Þórsmörk handan Krossár og öruggast er að leggja bílnum og taka hálendisrútuna upp Þórsmerkurveg númer F249. Daglegar rútuferðir eru í og úr Þórsmörk yfir sumarið en einnig er boðið upp á ferðir yfir veturinn. Hægt er að fá leigðar fjallarútur og sérútbúna fjallajeppa. Bókaðu hér á vefsíðunni og fáðu besta verðið!
Til að komast í Þórsmörk þarf að aka yfir fjölmargar ár á leiðinni upp Þórsmerkurveg nr. F249. Flestar árnar eru litlar og hægt er að aka á fjórhjóladrifsbílum hluta leiðarinnar við góðar aðstæður. Eftir því sem lengra er farið verða árnar vatnsmeiri og geta reynst mikill farartálmi fyrir venjulega jeppa. Krossá ætti enginn að reyna að aka yfir nema á breyttum fjallajeppum og vönum ökumönnum. Einfaldast og öruggast er að taka rútuna sem ekur daglega í og úr Þórsmörk. Hér er hægt að bóka miða í rútuna í Þórsmörk.
Hægt er að leggja bílnum við Brú Base skammt norðan við Seljalandsfoss á Þórsmerkurvegi nr. 249. Þaðan er hægt að taka rútuna sem kemur þér á öruggan hátt í Þórsmörk.
Göngubrýr yfir Krossá eru staðsettar ofar í dalnum milli Bása og Langadals og henta vel þeim sem þurfa að komast á milli Húsadals/Langadals og Bása. Gangan frá brúnni við Bása í Húsadal er um 6 km og tekur um 75 mín.
Brýrnar eru færanlegar og eru færðar eftir því sem árnar breyta sér. Þegar mikið vatn er í ánum getur þurft að vaða vatn sem flæðir framhjá brúnum en það er þó yfirleitt ekki djúpt. Í miklum leysingum getur þurft að fjarlægja brýrnar og þá er einungis hægt að komast yfir með rútunni. EKKI ER RÁÐLAEGT AÐ VAÐA YFIR KROSSÁ!
Ráðfærið ykkur við skálaverði í Húsadal, Langadal eða Básum áður en lagt er af stað til að staðfesta staðsetningu brúnna.
Í samstarfi við bílaleiguna ÍSAK bjóðum er hægt að leigja Land Rover Defender bíla sem komast alla leið í Þórsmörk. Skoðaðu möguleikana og fáðu tilboð með því að smella á þennan tengil.
Ekki reyna að aka yfir Krossá nema að hafa mikla reynslu af því að aka yfir ár og eruð á breyttum fjallabíl. Áin getur verið varasöm allan ársins hring. Takið rútuna frekar en að taka áhættuna!
Vegagerðin í síma 1777 og Safetravel.is gefa upplýsingar um ástand fjallvega og vatnavexti.
Á veturna er einungis fært í Þórsmörk með sérútbúnum fjallajeppum og hægt er að bóka ferðir sérstaklega. Hafið samband og við gerum tilboð í ferðir fyrir hópa allan ársins hring.
Húsadalur er staðsettur í Þórsmörk við enda Laugavegarins. Leiðin frá Landmannalaugum er um 55 km og flestir ganga hana á fjórum dögum. Gistiskálar eru staðsettir í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Emstrum og Þórsmörk. Tilvalið er að bæta við einum eða tveimur dögum til að ganga í Þórsmörk eða fara yfir Fimmvörðuháls í framhaldi af Laugaveginum.
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls í Húsadal er um 30 km löng. Leiðin er krefjandi með bröttum köflum og tekur á bilinu 8 - 12 tíma að ganga. Veður getur verið varasamt á Fimmvörðuhálsi með miklum vindi, úrkomu og slæmu skyggni. Skoðið veðurspá og ráðfærið ykkur við skálaverði áður en lagt er af stað.
Leiðin milli Húsadals og Bása er um 6 km og tekur um 75 mínútur. Leiðin liggur í gegnum Húsadalinn yfir í Langadal og þaðan eftir Krossáraurunum og yfir Krossá á tveimur göngubrúm sem komið er fyrir á sumrin.
Stysta leið milli Húsadals og Langadals er um 1,7 km og tekur um 25 mínútur að ganga. Leiðin liggur eftir vel merktri slóð og er auðveld yfirferðar. Einnig er hægt að ganga milli Húsadals og Langadals yfir fellið Valahnúk eftir vel merktri gönguleið. Leiðin yfir Valahnúk tekur um 1 klst, er brött á köflum og gefur afar gott útsýni yfir alla Þórsmörk.